föstudagur, 29. ágúst 2008

Velkomin í Félagsráðgjöf

Við viljum byrja á því að óska ykkur innilega velkomin og þakka ykkur sem mættuð á nýnemakynninguna kærlega fyrir góðan dag. Það eru auðsjáanlega frábærir einstaklingar að hefja nám við deildina, enda ekki von á öðru.

Í vetur er ætlunin að taka sérstaklega vel á móti nýnemum við deildina svo aðlögunin verði eins auðveld og þægileg og hægt er. Til að ná þessu fram höfum við tekið upp svokallað Mentorakerfi og verður öllum nýnemum í Félagsráðgjöf boðið að fá úthlutaðan Mentor. Sjö frábærir einstaklingar úr MA til starfsréttinda hafa tekið að sér hlutverk Mentora, þau eru: Elín Guðrún, Elísabet, Gylfi, Helga Rut, Margrét, Sigurlaug og Sólveig.

Hlutverk Mentoranna er að auðvelda aðkomu nýnemanna að nýjum skóla. Fyrst með kynnisferð um háskólasvæðið og Ugluna og síðan munu Mentorarnir vera nemendum innan handar út önnina og veita þeim hagnýtar upplýsingar eftir þörfum, greiða fyrir félagslegum tengslum, hjálpa nýnemunum að aðlagast kennsluháttum í háskólanum, vísa nemendum á þá þjónustu sem þeir eiga kost á ásamt fleiru.

Mentorum er ekki ætlað að aðstoða nýnemana með verkefni eða annað námsefni.

Nýnemunum er í sjálfvald sett hversu mikið þeir leita til Mentorins síns. Mentorar hafa gefið upp e-mail og síma svo hægt sé að ná í þá en einnig er hægt að óska eftir fundi með sínum Mentor.

Hver Mentor getur verið með um það bil 10 nýnema í sinni umsjá, ef einhver vill einhverra hluta vegna tilheyra hóp annars Mentors en honum hefur verið úthlutaður þá er best að hafa samband við mig, Margréti, en ég sé um utanumhald verkefnisins.

Við vonum að þið verðið ánægð með þátttöku og hlökkum til að kynnast ykkur betur í vetur ;)

Engin ummæli: